Færsluflokkur: Tölvur og tækni
25.2.2007 | 14:43
Tímarit Tækni og vits 2007 á lokastigi
Jæja, þá er tímaritið sem við gefum út í tilefni sýningarinnar Tækni og vit 2007 komið í prentsmiðjuna og einungis eftir að gera síðustu lagfæringar sem þörf er á eftir að próförk er skoðuð. Þetta verður hið flottasta tímarit og get ég sagt það algerlega án sjálfshóls, því það er hann Borgar hjá H2 hönnun sem á heiðurinn að umbroti og útliti Tækni og vit-tímaritsins. Eins og reyndar öllu sem tengist útliti sýningarinnar Tækni og vit 2007.
Svona til að gefa örlítið forskot á sæluna birti ég hér þrjár opnumyndir úr tímaritinu. Það verður alls 80 síður og verður því dreift með Viðskiptablaðinu næstkomandi föstudag, auk þess sem gestir Tækni og vits 2007 munu fá það ókeypis á sýningunni.
Kristinn Jón Arnarson
AP almannatengslum
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2007 | 11:47
Innovit: nýsköpunar- og frumkvöðlasetur
Ég vil byrja á því að óska aðstandendum Tækni og vit til hamingju með þetta nýja blogg sýningarinnar ásamt því að taka undir með orðum Kristins Jóns Arnarsonar um að það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig umræðan hérna þróast. Það er hins vegar alveg hárrétt að það liggur mjög beint við að stærsta tæknisýning sem haldin hefur verið á Íslandi nýti sér að sjálfsögðu þennan nýja og gríðarvinsæla miðil sem bloggið er.
Jæja, snúum okkur nú að Innovit sem er það félag sem ég stýri og mun kynna starfsemi sína á Tækni og vit, nánar tiltekið á sýningarbás númer C6. Innovit er nýstofnað undirbúningsfélag að stofnun nýsköpunar- og frumkvöðlaseturs. Við stofnendur félagsins sem öll erum núverandi eða fyrrverandi nemendur við Háskóla Íslands vinnum nú hörðum höndum að stofnun setursins í sinni endanlegri mynd. Ég hvet alla til að kynna sér félagið á heimasíðu okkar www.innovit.is og heimsækja sýningarbásinn okkar á Tækni og Vit. Það væri líka frábært að heyra frá sem flestum sem hafa áhuga á þessum málum, því mikilvægur hluti okkar undirbúningsvinnu er einmitt að heyra sem flest sjónarmið og hugmyndir frá þeim sem hafa skoðanir á starfsemi sem þessari!
Andri Heiðar Kristinsson
Framkvæmdastjóri Innovit
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.2.2007 | 10:51
Opnað fyrir miðapantanir á Tækni og vit
Nú er um það bil að klárast fundur þeirra Gittu, Jóhönnu og Elsu með sýnendum, en hann var haldinn í morgun. Á meðan sit ég hér á Mýrargötunni og legg lokahönd á tímarit Tækni og vits. Meira um það síðar.
En annars vildi ég bara rétt láta vita af því að opnað hefur verið fyrir miðapantanir á vef Tækni og vits - áhugasamir - bæði fagaðilar og almennir gestir - geta smellt hér og pantað sér miða á sýninguna!
Kristinn Jón Arnarson
AP sýningum
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 11:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2007 | 18:03
Hvernig bloggar sýning?
Nú eru um það bil 15 dagar í að Tækni og vit 2007, fagsýning tækni- og þekkingariðnaðarins, verði opnuð í Fífunni. Og liggur ekki beinast við að tæknisýning nýti sér þennan nýjasta miðil sem er einmitt afsprengi tæknibyltingar og netvæðingar síðustu ára?
En hvernig bloggar sýning? Er það í fréttaformi, þannig að bloggið verði svipað og fréttavefur sýningarinnar? Það er afskaplega þurrt, með fullri virðingu fyrir fréttavefnum okkar... Bloggar sýning þannig að starfsfólk setji inn færslur um hvernig undirbúningurinn gangi og hvað sé að gerast í teyminu? Jú, það er öllu áhugaverðara og meira í ætt við það sem bloggið gengur út á.
En hvernig væri að ganga skrefinu lengra? Og leyfa öllum þátttakendum að skrifa á bloggið? Við ætlum að prófa það. Hmmm... Kaótískt? Flókið? Stjórnlaust? Algerlega. Kannski vill enginn sýnandi blogga? Kannski vilja allir gera það en setja bara inn langlokur um að þeirra fyrirtæki séu flottust og bjóði bestu vörurnar?
Það er ómögulegt að segja til um þetta fyrirfram. Það eru yfir 100 þátttakendur í sýningunni sem sjálfsagt hafa allir mismunandi smekk og áhuga á því til hvers sé hægt að nýta blogg sýningarinnar. Og við gerum engar kröfur til þeirra varðandi bloggið aðrar en að fylgja eðlilegri háttvísi.
Þess vegna er þetta umfram allt spennandi tilraun. Sjáum til hvað gerist.
Kristinn Jón Arnarson,
kynningarfulltrúi Tækni og vits 2007
19.2.2007 | 16:02
Sjónvarpsauglýsing Tækni og vits 2007
Sjónvarpsauglýsing Tækni og vits 2007 - unnin af einum sýnendanna, fyrirtækinu CAOZ, gjörið þið svo vel...
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)