Færsluflokkur: Tölvur og tækni

40 mínútur í opnun... Nokkrar myndir

Örlítið farið að hægjast um hér og flestir búnir að koma sér fyrir. Enda ekki nema von, því það eru einungis 40 mínútur í að opnunarathöfnin hefjist.

 Hér eru nokkrar myndir - meira síðar. Smile

 

8mars1

8mars2

8mars3

8mars4


Örfáir klukkutímar í opnun...

Jæja, nú eru rétt um fjórir klukkutímar þar til Geir H. Haarde opnar Tækni og vit 2007. Ég hef verið á fjölmiðlasnúningi og mætti m.a. á Morgunvaktina á Rás 1 í morgun eins og heyra má hér. Svo er komin inn opinber tilkynning um opnunina á vef Tækni og vits.

Áhugamönnum um upplýsingatækni bendi ég svo á að ráðstefna UT-dagsins er að hefjast núna klukkan 13:00 í Salnum í Kópavogi, en hægt er að fylgjast með ráðstefnunni á UT-vefnum

Þá er kominn tími til að bregða sér niður í Fífu. Vonandi hef ég tíma til að henda einhverju hér inn áður en sýningin opnar...


Handagangur í öskjunni við undirbúning Tækni og vits

Þegar þetta er skrifað eru einungis örfáar mínútur í að 8. mars renni upp, en þessi dagur hefur í næstum því heilt ár verið merktur með rauðu í dagatali okkar hjá AP sýningum og AP almannatengslum. Fimmtudaginn 8. mars verður nefnilega stórsýningin Tækni og vit 2007 opnuð formlega og það er enginn annar en forsætisráðherra, Geir H. Haarde, sem mun gera það upp úr kl. 17. Klukkan 18:00 opnar svo sýningin dyrnar fyrir fyrstu gestunum (sorrý, einungis boðsgestir á formlegu opnunina).

Þegar ég gekk um svæðið í kvöld fékk ég hressilegan fiðring í magann yfir því hvað sýnendur eru að setja upp flott sýningarsvæði og hafa lagt gríðarlega vinnu í að undirbúa þátttöku sína í Tækni og viti 2007. En um leið velti maður því fyrir sér hvort það verði virkilega búið að binda alla lausa enda í tæka tíð fyrir opnunina á morgun. Því þótt búið sé að klára margt er enn talsvert ógert. En við Íslendingar erum svo sem vanir að klára hlutina á síðustu stundu og tækni- og þekkingargeirinn er engin undantekning frá því.

En til að veita örlitla innsýn í það sem gestir geta búist við (og reyna að fanga stemmninguna á gólfinu) tók hún Jóhanna, sem er búin að standa vaktina niðri í Fífu alla vikuna ásamt þeim Gittu og Elsu, nokkrar myndir fyrr í dag:

uppsetning1
Hmmm.... Ætlaði þessi nokkuð að taka þátt í sýningunni Sumarhús og garður?

uppsetning2
Það klæjar án efa marga í puttana að fá að kíkja inn á þennan bás...

uppsetning3
Það verður mini-kvikmyndahús á staðnum í boði CAOZ...

uppsetning4
Næstu fjóra daga verða hvergi á landinu jafn margir flatskjáir að meðaltali á hvern fermeter og í Fífunni...

uppsetning5
Aksjón í uppsetningunni...

Og þegar þessi hluti pistilsins er skrifaður er 8. mars runninn upp!

Til hamingju með daginn, íslenskur tækni- og þekkingariðnaður! Sjáumst í Fífunni! Smile

Kristinn Jón Arnarson
AP sýningum


Ísland.is - nánar kynnt á sýningunni Tækni og vit í Fífunni

Ísland.is er ansi magnað verkefni á vegum forsætisráðuneytisins, en hugmyndin að þessum vef er að hann verði fyrsti (og helst eini) staðurinn sem almenningur og fyrirtæki þurfa að leita til þegar leitað er upplýsinga um þjónustu ríkis, stofnana eða sveitarfélaga.

Í tímariti Tækni og vits er viðtal við Guðbjörgu Sigurðardóttur, skrifstofustjóra hjá forsætisráðuneyti, þar sem hún segir m.a. um Ísland.is:

„Ísland.is er þjónustuveita fyrir almenning og fyrirtæki sem ætlað er að verða eðlilegur byrjunarpunktur þegar leitað er eftir upplýsingum og þjónustu. Vefurinn tekur til allrar helstu þjónustu á vegum opinberra aðila og því þarf sá sem leitar upplýsinga ekki að vita fyrirfram hvaða stofnun eða sveitarfélag ber ábyrgð á því sem hann leitar að – hann fer einfaldlega á Ísland.is og finnur svarið,“ segir Guðbjörg. 

Vefurinn mun benda á alla þá staði sem veita þjónustu í hverjum málaflokki en oft geta það verið margar stofnanir og því er hagræðið mikið fyrir almenning að fá allar upplýsingar á einum stað.

Jafnframt verður á Ísland.is aðgengi að nánast öllum eyðublöðum ríkisins á einum stað, flest eru enn sem komið er aðeins til útprentunar en í vaxandi mæli verður hægt að fylla þau út og senda inn rafrænt.
Guðbjörg segir að eins og gera megi sér í hugarlund sé verkefni á borð við Ísland.is stórt og að baki því liggi mikil vinna.

„Þetta er langtímaverkefni og með opnuninni erum við að taka fyrsta skrefið af mörgum. Sá vefur sem almenningur mun sjá á opnunardaginn er fyrsta útgáfa af kerfinu, sem mun svo vaxa og þróast mikið á komandi árum. Við sjáum t.d. fyrir okkur að í framtíðarútgáfum verði hægt að bjóða upp á einstaklingsmiðaðar síður, þar sem hver og einn hefur aðgang að þeim persónulegu upplýsingum sem stjórnsýslan býr yfir um viðkomandi einstakling.“

Forsætisráðuneytið er einn af samstarfsaðilum sýningarinnar Tækni og vits, sem verður einmitt opnuð í Fífunni á morgun og stendur fram á sunnudag og mun þar kynna þessa þjónustuveitu nánar.

Kristinn Jón Arnarson
AP sýningum


mbl.is Þjónustuveitan Ísland.is opnuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þriðja kynslóð farsíma - úr Tækni og vit tímaritinu

Hjálmar Gíslason hefur nú birt seinni grein sína af tveimur úr tímariti Tækni og vits 2007. Að þessu sinni fjallar hann um þriðju kynslóð farsíma, sem er málefni sem hann þekkir ansi vel, enda starfar hann sem forstöðumaður vöruþróunar hjá Símanum. Greinina má lesa með því að smella hér.

Betri svar tækni með IP símkerfi

Annað er ekki hægt, fyrir fyrirtæki sem þykist vera framarlega í nýtingu Netsins, en að taka þátt í þeirri tilraun sem blogg heillar sýningar verður að flokkast undir.

Við hjá Svar tækni leggjum mikið undir á sýningunni Tækni og Vit en undirbúningstíminn hefur verið nokkuð langur og það er óneitanlega gaman að sjá skissur á blaði breytast í háreistan bás, en það er einmitt það sem er að gerast í Fífunni í þessum skrifuðum orðum. Minnst er það þó undirrituðum að þakka, aðallega harðduglegum ,,iðnaðarmönnum", sem væru kallaðir sérfræðingar í okkar tækni bransa.

Á Tækni og Vit munum við sýna tvö af okkar helstu vörumerkjum, annarsvegar Acer tölvubúnað og hinsvegar Swyx IP símkerfi. 

Í þessum pistli mun ég tala aðeins um það síðarnefnda.

Eitt megin ,,buzz" orðið í tæknibransanum í dag eru IP símkerfi en þeim má skipta í tvo megin flokka;

  • Hefðbundin símkerfi með IP viðbót, svokölluð ,,hybrid"
  • Hrein IP símkerfi byggð á hugbúnaði sem keyranlegur er á hvaða netþjóni sem er

Swyx fellur í seinni flokkinn, en deila má um hvort sá fyrri bjóði upp á miklar nýjungar og má frekar tala um uppfærslu frekar en hreina nýjung.

Til að gera langa sögu stutta um þá breytingu sem alvöru ,,hrein" IP símkerfi bera með sér er einfaldast að nefna þá skondnu staðreynd að þó flest þau tæki og tól sem voru notuð á skrifstofum landsins fyrir 10 árum hafi verið skipt út fyrir tækni-nýjungar er símtækið enn nokkuð óbreytt, og fellur þar í flokk með pennum og hefturum! Allir hafa tölvur, sumir fartölvur, og við tölvuna er tengd mús, lyklaborð og fleiri hjálpartæki. Ekkert af þessu var staðalbúnaður skrifstofa fyrir áratug. Hinsvegar er símtækið þarna ennþá!

Með innleiðingu IP símkerfis opnast sá möguleiki að færa símtækið ,,inn í" tölvuna sem gerir samþættingu við annan hugbúnað t.d póst- eða viðskiptatengslaforrit afskaplega auðveldan. Allar aðgerðir verða mun einfaldari þegar síminn er kominn í viðmót sem allir þekkja - til að gefa símtal yfir á kollega er símtalið einfaldlega dregið yfir á tengiliðinn (drag and drop). Sama má segja um aðra möguleika eins og símafundi, tímabundna áframsendingu allra símtala á annað númer eða jafnvel flókna sjálfvirka svörun fyrir hvern og einn notenda.

Þegar síminn er kominn inn í fartölvuna þá fylgir hann þér hvert sem er - hvort sem þú ert að bíða eftir tengiflugi á Kastrup-flugvelli tengdur við þráðlaust internet eða uppi á hótel herbergi í Bandaríkjunum þá er internet tenging allt sem þarf til að fá beint samband við símkerfið og sjá allt rétt eins og þú værir staddur á skrifstofunni. Þannig verða líka öll símtöl heim mun ódýrari, því þau ferðast yfir Atlantshafið í gegnum IP netið og fara svo síðasta spölinn um íslenska símanetið, og taxtinn sem þú borgar er því sá sami og ef þú værir að hringja beint frá skrifstofunni.
Að sjálfsögðu er hægt að nota hefðbundið símtæki við Swyx IP símkerfið, en reynslan sýnir okkur að 9 af hverjum 10 notendum velur tölvusímann svokallaða fram yfir gamla símtækið - sem er auðvitað hagkvæmt því símarnir kosta alltaf sitt!

Viðtökur íslenskra fyrirtækja við þessari nýju hugsun hafa verið frábærar - frá fyrstu kynningu í apríl 2006 og til dagsins í dag hafa rétt um 60 fyrirtæki tekið Swyx IP símkerfi í notkun.
Þess ber þó að geta þess að Svar tækni býður upp á fleiri tegundir símkerfa enda einn stærsti söluaðili símkerfa á Íslandi.

Á næstu dögum mun ég segja aðeins frá Acer tölvubúnaði, sem er hitt vörumerkið sem við sýnum á Tækni og Vit. 

Fyrir nánari upplýsingar um Swyx IP símkerfin bjóðum við þig velkominn í bás D7 á Tækni og Vit, dagana 8. til 11. mars

Daníel Rúnarsson
Markaðsstjóri Svar tækni
www.Svar.is
www.Swyx.is
www.SimkerfaByltingin.is


Allt í gangi í Fífunni

Þær Gitta, Jóhanna og Elsa hafa staðið í ströngu frá því á sunnudag, en þá fluttu þær skrifstofu sína niður í Fífu til að halda utan um uppbyggingu Tækni og vits 2007. Það er að koma mynd á þetta allt saman, en eins og vera ber eru enn ansi mörg handtök óunnin.

elsaoggittaÞað er alltaf tilkomumikið að fylgjast með sýningum á borð við þessa byggjast upp, því ótrúlega mikil vinna liggur á bak við svona viðburð og er sú vinna jafnan unnin á mjög stuttum tíma. Okkur telst til að hátt í 400 manns komi að uppbyggingunni með einum eða öðrum hætti nú í vikunni og þá er ótalinn allur sá fjöldi starfsmanna sem munu svo vinna í sýningarbásunum sjálfum frá fimmtudegi og fram til sunnudags.

Það var mismikil mynd komin á þetta í hádeginu í dag þegar ég leit við niðri í Fífu, en þó virtust Samtök iðnaðarins, TM Software, CAOZ, Formúla 1 og Svar tækni vera hvað lengst komin með sína bása. Þær segja svo niðri í Fífu að mikill handagangur sé í öskjunni nú síðdegis, enda voru margir sýnendur að hefja sína uppsetningarvinnu í dag.

Að sjálfsögðu smellti ég af nokkrum myndum. Hér fyrir ofan má sjá þær Elsu sýningarstjóra og Gittu framkvæmdastjóra brosa sínu breiðasta undir AP-logoinu.

Hér er svo yfirlitsmynd sem sýnir u.þ.b. 1/4 af sýningarsvæðinu:

yfirlitsmynd

Og hérna má sjá hluta af bás TM Software, sem er eins og allir vita einn af samstarfsaðilum Tækni og vits 2007:

tms

Það verður spennandi að sjá breytinguna sem verður orðin á svæðinu eftir kvöldið, en það má búast við að margir vinni frameftir í Fífunni í kvöld...

Kristinn Jón Arnarson
AP sýningum


Framtíð Netsins - grein úr Tækni og vit blaðinu

hg-smallHjálmar Gíslason, einn innmúraðasti og innvígðasti maðurinn í íslenska tækni- og tölvugeiranum, skrifaði tvær afar athyglisverðar greinar í Tækni og vit-blaðið. Annars vegar fjallar hann um framtíð Internetsins og hins vegar þriðju kynslóð farsíma.

Hjálmar heldur úti bloggsíðunni hjalli.com og þeir sem eru svo óheppnir að hafa ekki fengið Tækni og vit blaðið til sín (en munu þá að sjálfsögðu eignast það á sýningunni um helgina!) geta lesið greinina um framtíð Netsins á blogginu hans - og til stendur að greinin um þriðju kynslóðina birtist þar einnig innan skamms.

Fínasta lesning á meðan fólk bíður spennt eftir að Tækni og vit 2007 opni!


Tækni og vit tæklar óvænta samkeppni

Það voru kannski ekki allir búnir að átta sig á því, en hin alræmda klámráðstefna á Hótel Sögu átti að verða haldin sömu helgi og Tækni og vit.

Þegar við fengum veður af þessu var að sjálfsögðu haldinn krísufundur hjá Tækni og vit-teyminu og ákveðið að hjóla í hina óvæntu samkeppni af fullum krafti.

"Við látum sko ekki einhverja útlenda klámspekinga taka af okkur kastljósið," var sameiginleg niðurstaða fundarins. Og hvernig átti að svara þessu? Jú, með því að taka klámhundana á eigin bragði. "Hefur ekki klámiðnaðurinn verið einn helsti drifkraftur tækninnar, allt frá fyrstu árum myndbandstækjanna og nú fram á tíma Internetsins?" Við ákváðum að keyra á þetta og sýna að við gætum sko líka verið klámfengin.

Kúrsinum var breytt og hóað í fjölmiðla og sagt að nú væri allt að gerast hjá Tækni og viti. Klámráðstefna hvað, ha?!? Við höfum sko ógrynnin öll af tækjum og tólum - og hvað ætli sé hægt að gera við þau?!?

Afraksturinn birtist m.a. í Viðskiptablaðinu 16. febrúar síðastliðinn, þegar viðtal við Gittu framkvæmdastjóra Tækni og vits 2007 birtist með fyrirsögninni "Íslendingar elska að spá í alls kyns tæki og tól." Á sömu opnu var frétt af þessari margfrægu klámráðstefnu, sem hvarf algerlega í skuggann af Tækni og viti, eins og sjá má af meðfylgjandi mynd.

vafasom_samkeppni

Allir vita framhaldið, hætt var við klámráðstefnuna, aðallega af því að skipuleggjendur sáu að þeir áttu ekki roð í þetta öfluga fólk hjá Tækni og viti 2007, þótt þeir hafi vissulega látið líta út fyrir að ástæðurnar hefðu verið aðrar. Og allir sáttir - því nú geta Íslendingar einbeitt sér að Tækni og viti 2007 - sem verður opnuð eftir einungis sex daga!


PS. Þetta er kannski ekki alveg satt. En eins og gefur að skilja fannst okkur óneitanlega fyndið að sjá opnuna sem um ræðir hjá Viðskiptablaðinu 16. febrúar með umfjöllun um Tækni og vit 2007 vinstra megin og klámráðstefnuna hægra megin - sérstaklega í ljósi þess hvaða fyrirsögn var valin á viðtalið við Gittu. Smile


Fyrstu eintök tímarits Tækni og vits 2007 komin úr prentun

Fyrstu eintökin duttu inn á skrifstofur AP almannatengsla nú rétt eftir hádegi og eins og venjulega þegar stór verkefni koma úr prentun var tilfinningin svona mitt á milli "Jibbí" og "Á ég að þora að fletta..." Sem betur fer er fyrri tilfinningin að ná yfirhöndinni, því við fyrstu flettingar komum við ekki auga á nein slys.

t&v_timarit_kapaNú má ekki líta út sem svo að gæðastjórnunin sé á svo lágu plani að maður hlaupi í felur þegar blað kemur úr prentun, heldur kannast sennilega flestir sem hafa unnið við útgáfu við það hvernig ótrúlegustu villur geta staðið af sér ítarlegan prófarkalestur og yfirlegu. Á meðan prófarkalesari og ritstjóri skeggræða fram og aftur hvort skrifa eigi "netið" eða "Netið" í setningu í miðri þriggja blaðsíðna grein getur verið risastór og fáránleg prentvilla í fyrirsögn greinarinnar sem enginn tekur eftir.

Svo getur ýmislegt gerst í meðförum prentsmiðjunnar, sumt litið betur út á skjá heldur en í raunheimi og þannig mætti lengi telja.

En sem sagt: Fyrstu flettingar á blaðinu benda til þess að allt sé eins og það á að vera. Jibbí! Smile

Margt athyglisvert er í blaðinu og má til að mynda nefna viðtal við Jon S. von Tetzchner, framkvæmdastjóra og stofnanda Opera Software, þar sem hann segir m.a. frá gjöfulu samstarfi við Nintendo. Við skoðum nokkra nýja og flotta farsíma, ræðum við Gísla Hjálmtýsson, framkvæmdastjóra Brúar um fjármögnun tæknifyrirtækja og fræðumst um það af hverju Hilmar V. Pétursson hjá CCP telur að EVE Online sé ekki tölvuleikur! Svo eru þarna greinar um þriðju kynslóð farsíma, framtíð Internetsins rædd, spjallað við bloggara og að sjálfsögðu rætt við fjölmarga af þeim rúmlega 100 sýnendum sem verða á Tækni og viti 2007.

Og þá er komið að kreditlistanum: Borgar hjá H2 hönnun fær stórt klapp á bakið fyrir útlitshönnun og umbrot. Samstarfsfólkið hjá AP hjálpaði til við allt frá prófarkalestri til ráðgafar, auglýsingasölu og greinaskrifa. Þau stóðu vaktina með eindæmum vel og eiga stóran þátt í því að viðbrögðin við blaðinu nú séu "Jibbí". Íslandsprent skilaði blaðinu flottu á mettíma, Jón Páll Vilhelmsson ljósmyndari á nokkrar frábærar myndir í blaðinu (þar á meðal forsíðumyndina) auk þess sem Arnaldur Halldórsson bjargaði okkur þegar Jón Páll þurfti að bregða sér til Ítalíu til að ljósmynda fyrir Armani. Pistlahöfundurinn Hjálmar Gíslason og greinarhöfundurinn Ásgeir H. Ingólfsson eiga líka þakkir skildar fyrir sitt innlegg, auk þeirra fjölmörgu viðmælenda og heimildarmanna sem rætt er við.

Og svo þökkum við að sjálfsögðu auglýsendum fyrir sitt innlegg í blaðið!

Og hvenær fær fólk að sjá herlegheitin? Blaðinu verður dreift með Viðskiptablaðinu á föstudaginn, þannig að áskrifendur þess eiga von á glaðningi frá Tækni og viti 2007, fyrirtæki í hátæknigeiranum fá sent eintak og svo fá gestir á Tækni og viti 2007 blaðið á sýningunni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband