Allt yfirstaðið

Jæja, þá hefur Tækni og vit 2007 lokað dyrum sínum og búið að hreinsa allt út úr Fífunni. Síðustu dagar hafa svo sannarlega verið viðburðaríkir og svo sannarlega var áhugi úti í þjóðfélaginu á að sjá hvað íslensk tækni- og þekkingarfyrirtæki hafa fram að færa. Um 15.000 manns heimsóttu Tækni og vit 2007 og við þökkum að sjálfsögðu öllum sem sóttu okkur heim fyrir komuna!

En sýning á borð við þessa yrði ansi tómleg án sýnendanna og vil ég nota tækifærið hér til að þakka þeim sérstaklega vel fyrir frábært samstarf. Þeir lögðu á sig gríðarlega mikla vinnu til að gera sýninguna sem áhugaverðasta og sýndu þolinmæði og góðan samstarfsvilja þegar á þurfti að halda.

Lesendur bloggsins fá einnig þakkir fyrir áhugann sem þeir sýndu. Ég byrjaði þessa bloggtilraun á því að spyrja hvernig sýning bloggi - og við höfum hér fengið ákveðið svar. Þ.e. svar við því hvernig Tækni og vit 2007 bloggaði, en eins og nærri má geta er sennilega ekki hægt að fá eitt svar við þessari spurningu - blogg eru einfaldlega jafn mismunandi og bloggararnir eru margir.

Það er alla vega ljóst að þessi vettvangur er mjög skemmtileg viðbót við upplýsingagjöf frá svona stórviðburði. Hér er hægt að láta fleiri hluti flakka en í hefðbundnum fréttum og hægt að skella inn myndum og stuttum molum á skömmum tíma. Bloggið er án efa komið til að vera - á sýningum, a.m.k.

Kristinn Jón Arnarson
AP almannatengslum


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband