7.3.2007 | 17:11
Ísland.is - nánar kynnt á sýningunni Tækni og vit í Fífunni
Ísland.is er ansi magnað verkefni á vegum forsætisráðuneytisins, en hugmyndin að þessum vef er að hann verði fyrsti (og helst eini) staðurinn sem almenningur og fyrirtæki þurfa að leita til þegar leitað er upplýsinga um þjónustu ríkis, stofnana eða sveitarfélaga.
Í tímariti Tækni og vits er viðtal við Guðbjörgu Sigurðardóttur, skrifstofustjóra hjá forsætisráðuneyti, þar sem hún segir m.a. um Ísland.is:
Ísland.is er þjónustuveita fyrir almenning og fyrirtæki sem ætlað er að verða eðlilegur byrjunarpunktur þegar leitað er eftir upplýsingum og þjónustu. Vefurinn tekur til allrar helstu þjónustu á vegum opinberra aðila og því þarf sá sem leitar upplýsinga ekki að vita fyrirfram hvaða stofnun eða sveitarfélag ber ábyrgð á því sem hann leitar að hann fer einfaldlega á Ísland.is og finnur svarið, segir Guðbjörg.
Vefurinn mun benda á alla þá staði sem veita þjónustu í hverjum málaflokki en oft geta það verið margar stofnanir og því er hagræðið mikið fyrir almenning að fá allar upplýsingar á einum stað.
Jafnframt verður á Ísland.is aðgengi að nánast öllum eyðublöðum ríkisins á einum stað, flest eru enn sem komið er aðeins til útprentunar en í vaxandi mæli verður hægt að fylla þau út og senda inn rafrænt.
Guðbjörg segir að eins og gera megi sér í hugarlund sé verkefni á borð við Ísland.is stórt og að baki því liggi mikil vinna.
Þetta er langtímaverkefni og með opnuninni erum við að taka fyrsta skrefið af mörgum. Sá vefur sem almenningur mun sjá á opnunardaginn er fyrsta útgáfa af kerfinu, sem mun svo vaxa og þróast mikið á komandi árum. Við sjáum t.d. fyrir okkur að í framtíðarútgáfum verði hægt að bjóða upp á einstaklingsmiðaðar síður, þar sem hver og einn hefur aðgang að þeim persónulegu upplýsingum sem stjórnsýslan býr yfir um viðkomandi einstakling.
Forsætisráðuneytið er einn af samstarfsaðilum sýningarinnar Tækni og vits, sem verður einmitt opnuð í Fífunni á morgun og stendur fram á sunnudag og mun þar kynna þessa þjónustuveitu nánar.
Kristinn Jón Arnarson
AP sýningum
![]() |
Þjónustuveitan Ísland.is opnuð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 17:12 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.