Fyrstu eintök tímarits Tækni og vits 2007 komin úr prentun

Fyrstu eintökin duttu inn á skrifstofur AP almannatengsla nú rétt eftir hádegi og eins og venjulega þegar stór verkefni koma úr prentun var tilfinningin svona mitt á milli "Jibbí" og "Á ég að þora að fletta..." Sem betur fer er fyrri tilfinningin að ná yfirhöndinni, því við fyrstu flettingar komum við ekki auga á nein slys.

t&v_timarit_kapaNú má ekki líta út sem svo að gæðastjórnunin sé á svo lágu plani að maður hlaupi í felur þegar blað kemur úr prentun, heldur kannast sennilega flestir sem hafa unnið við útgáfu við það hvernig ótrúlegustu villur geta staðið af sér ítarlegan prófarkalestur og yfirlegu. Á meðan prófarkalesari og ritstjóri skeggræða fram og aftur hvort skrifa eigi "netið" eða "Netið" í setningu í miðri þriggja blaðsíðna grein getur verið risastór og fáránleg prentvilla í fyrirsögn greinarinnar sem enginn tekur eftir.

Svo getur ýmislegt gerst í meðförum prentsmiðjunnar, sumt litið betur út á skjá heldur en í raunheimi og þannig mætti lengi telja.

En sem sagt: Fyrstu flettingar á blaðinu benda til þess að allt sé eins og það á að vera. Jibbí! Smile

Margt athyglisvert er í blaðinu og má til að mynda nefna viðtal við Jon S. von Tetzchner, framkvæmdastjóra og stofnanda Opera Software, þar sem hann segir m.a. frá gjöfulu samstarfi við Nintendo. Við skoðum nokkra nýja og flotta farsíma, ræðum við Gísla Hjálmtýsson, framkvæmdastjóra Brúar um fjármögnun tæknifyrirtækja og fræðumst um það af hverju Hilmar V. Pétursson hjá CCP telur að EVE Online sé ekki tölvuleikur! Svo eru þarna greinar um þriðju kynslóð farsíma, framtíð Internetsins rædd, spjallað við bloggara og að sjálfsögðu rætt við fjölmarga af þeim rúmlega 100 sýnendum sem verða á Tækni og viti 2007.

Og þá er komið að kreditlistanum: Borgar hjá H2 hönnun fær stórt klapp á bakið fyrir útlitshönnun og umbrot. Samstarfsfólkið hjá AP hjálpaði til við allt frá prófarkalestri til ráðgafar, auglýsingasölu og greinaskrifa. Þau stóðu vaktina með eindæmum vel og eiga stóran þátt í því að viðbrögðin við blaðinu nú séu "Jibbí". Íslandsprent skilaði blaðinu flottu á mettíma, Jón Páll Vilhelmsson ljósmyndari á nokkrar frábærar myndir í blaðinu (þar á meðal forsíðumyndina) auk þess sem Arnaldur Halldórsson bjargaði okkur þegar Jón Páll þurfti að bregða sér til Ítalíu til að ljósmynda fyrir Armani. Pistlahöfundurinn Hjálmar Gíslason og greinarhöfundurinn Ásgeir H. Ingólfsson eiga líka þakkir skildar fyrir sitt innlegg, auk þeirra fjölmörgu viðmælenda og heimildarmanna sem rætt er við.

Og svo þökkum við að sjálfsögðu auglýsendum fyrir sitt innlegg í blaðið!

Og hvenær fær fólk að sjá herlegheitin? Blaðinu verður dreift með Viðskiptablaðinu á föstudaginn, þannig að áskrifendur þess eiga von á glaðningi frá Tækni og viti 2007, fyrirtæki í hátæknigeiranum fá sent eintak og svo fá gestir á Tækni og viti 2007 blaðið á sýningunni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Púkinn

Jæja, þá er þetta dottið inn á borð Púkans - og einnig boðsmiði.  Sjáumst á sýningunni.

Púkinn, 2.3.2007 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband